Dedda frænka…

Dedda frænka átti svo fallegar kápur. Reyndar átti hún eiginlega allt fallegt og það var ótrúlega skemmtilegt að koma heim til hennar. Hún var systir hennar ömmu Siggu og kom doldið í staðinn fyrir hana í mínu lífi því amma Sigga dó akkúrat mánuði áður en ég fæddist. Dedda passaði okkur systurnar af og til þegar ég var lítil, sat með mig í fanginu á meðan Svava systir og vinkonur gerðu morgunleikfimi á stofugólfinu með Valdimar Örnólfs í útvarpinu 😉

Dedda dundaði sér mikið og sönglaði þá alltaf „Dibbi dibbi dibb, dibbi dibb – dibbi dibbi dibb, dibbi dibb…“ aldrei texta, bara Dibbið. Finnst þetta svo fyndið í minningunni, sé hana svo fyrir mér sönglandi með fjólubláa hárið sitt, lagt og greitt, í Vigdís Finnbogasíðum kjól og skóm með oggu hæl. Dásemdin ein 🙂

IMG_1881

 

Nema hvað, aftur að kápunum hennar Deddu. Ég var svo heppin að fá að erfa tvær kápur eftir hana, báðar gamlar, verulega fallegar og alveg hreint gæðaefni og saumaskapur á þeim auðvitað – en kannski ekki alveg í sniði sem hentaði mér. Ég ákvað að henda mér í að breyta annarri þeirra, reyndar tímdi ég ekki að breyta henni mikið því hún er mjög smart að ofan, en síddin var bara ekki að passa mér…

Ponnsu svona pokaleg á mér en ég hef verið sérstaklega hrifin af staðsetningu talnanna, svona ójafnt bil á milli 🙂 Ekki fyrir alla, ég veit 😉

Þetta var svo sem ekkert mikið mál þannig séð, ég klippti örugglega hátt í 20cm neðan af henni og þá var í raun ekkert eftir nema að ganga frá faldi og fóðri. Ég reyndar bætti við saumum að aftan, sá það í gömlu sníðablaði og það gerir fallega lögun á bakið.

Saumurinn, einn á hvora rasskinn, gerir það að verkum að neðsti hluti jakkans rennur aðeins inn að aftan. Mér finnst það gera mjög mikið fyrir bakið á jakkanum 🙂

Dásemdar kápa sem breyttist í jakka, yndislega hlýr og góður 🙂

Takk elsku Dedda, fyrir góðan smekk og allt hitt ❤

Takk fyrir að lesa 🙂

Birt í Óflokkað, fatabreytingar, fatagerð, Jacket, Recycling, saumaskapur, sewing, Women´s fashion | Merkt , , , | Færðu inn athugasemd

Að búa til snið

img_1957Mér finnst hrikalega gaman að endurnýta það sem til er, elska að breyta fötum og oft sauma ég uppúr  fötum sem lokið hafa sínu lífi. Hvort sem verið er að breyta eða búa til nýtt, er alltaf gott að hafa eitthvað snið í huga til að miða við. Ég hef fjallað um eina af mínum uppáhalds sníðaaðferðum, Lutterloh en núna ætla ég að búa til snið uppúr gömlu.

Ég fékk nefnilega doldið skemmtilegt verkefni um daginn, að sauma nýtt „cover“ á nuddpúða. Nokkuð viss um að ég hafi aldrei gert það áður. Gamla „coverið“ var alveg í henglum…

Þar sem efnið var ónýtt þá var einfaldast uppá nákvæmni sniðsins, að spretta öllum saumum og taka þetta í sundur. Það tók nú sinn tíma og að því loknu þá leit þetta…og ég svona út 🙂 Það hrundi nefnilega all hressilega af þessu, pleðrið bara morkið…

img_1926

Næsta skref var að slétta sem best úr öllum bútum og búa til nýtt snið. Ég gerði það með því að leggja hvern bút ofan á efni og teikna í kring. Það er mikilvægt að teikna inná hvort það er saumfar innifalið, eins ef klippt hefur verið í og öll samskeyti líka. Þannig verður stærðin sem nákvæmust.

Mér finnst gott að nota efni í snið sem ég ætla að eiga áfram því það er einfaldara að geyma þau. Þá nota ég frekar stíf efni, og auðvitað sterk sem endast 🙂

María, nornin mín sem á nuddpúðann, átti líka afganga af pleðri sem hún lét mig hafa til að nota ef ég gæti. Það er auðvitað æði að geta púslað alls konar saman…

Innan í er svampur sem ég vafði með plasti, eiginlega af því það var plast – veit ekki af hverju en mig grunar að það sé svo svampurinn renni betur inn í „coverið“

Ég er bara doldið ánægð með þessa fyrstu tilraun af sníðun og saumun í pleður 🙂

Takk fyrir að lesa ❤

Birt í Óflokkað | Færðu inn athugasemd

Verkefnin…

_MG_0023 3Öll höfum við verkefni hér í þessu dásamlega lífi, þau birtast á þröskuldinum okkar, stundum óumbeðin og stundum eftir langa bið. Sum verkefnin er stór og önnur lítil, sum standa yfir í stuttan tíma og sumum ætlar aldrei að ljúka – og viðhorf okkar til verkefnanna eru eins misjöfn og við erum mörg 🙂

Undanfarið hafa verkefnin mín verið nokkur og öll í lengri kantinum og sum sé ég ekki alveg fyrir endann á ennþá. Allt eru þetta verkefni sem þroska mig og gera mig að betri manneskju og ég er þakklát fyrir að fá að læra svona mikið í þessu lífi 🙂

saumakomment_happyplace

Þegar reynir á þá finnst mér svo gott að gleyma mér í saumahorninu mínu, það er alveg ótrúlegt hvað efni gefa mér mikla gleði og samvera við þau róa hugann. Ég er reyndar búin að læra að þegar mikið gengur á, þá borgar sig ekki að vinna pantanir fyrir aðra, því ég veit ekki hvað verður úr og hvað það tekur langan tíma. Þá er mikilvægt fyrir mig að geta tekið mér allan þann tíma sem ég vil, dunda mér meir en að vinna markvisst. Stundum kemur nákvæmlega ekkert útúr þannig vinnu – nema einstaka ónothæf flík 🙂 en stundum kemur eitthvað út sem hægt er að nota. Núna í sumar hef ég verið að dunda mér við ýmislegt og langaði að deila með ykkur tveimur flíkum sem urðu til í akkúrat svona aðstæðum 🙂

saumakomment_shhhh

 

Kjólinn er svona slembisaumaskapur, þ.e. mig langaði að gera eitthvað…bara eitthvað sem tæki ekki langan tíma. Efnið er ég búin að eiga í nokkur ár og sneið það uppúr sniði sem ég bjó til fyrir löngu. Gerði svo í raun bara eitthvað sem mig langaði, t.d. tvöfalt stroff á ermum og opið bak.

Peysukápan er hins vegar flík sem mig hefur lengið langað til að sauma. Ég á svona svipaða peysu og er búin að stefna á að sauma uppúr henni. Byrjaði loksins á henni í vor og kláraði núna seinnipartinn í sumar. Tók mér góð hlé inná milli 🙂

Takk fyrir að lesa ❤

Birt í Óflokkað | 2 athugasemdir

Kroppagína

IMG_3581Jamm, kroppagína 🙂 Hafið þið ekki séð svona youtube myndbönd þar sem verið er að kenna alls konar – og allt er svo einfalt?

Ég sá einu sinni svona myndband þar sem verið var að búa til saumagínu á ákveðinn kropp. Það þurfti ekki mikið; ónýtan, aðsniðinn bol, plastfilmu, breitt límband, skæri og svo troð til að setja inní. Síðan áttu að geta búið til snið og saumað flíkur sem hreinlega þarf bara nánast ekkert að máta. Myndbandið má sjá hér en mér tókst að plata Gunnhildi bestu mína með mér í þetta „auðvelda“ verkefni.

Við skelltum okkur í boli – sem reyndust vera kjólar með hlírum. Okkur þótti það ekkert verra, þá gátum við stjórnað síddinni á gínunni – hugsuðum okkur gott til glóðarinnar að geta búið til buxnasnið og alles 🙂

Nú, fyrst var auðvitað að passa uppá að brjóstin væru örugglega þarna á gínunni; líma undir, líma kringum og líma yfir – allt eftir kúnstarinnar reglum. Þá leit Gunnhildur einhvern veginn svona út…

Ég festist ekki á filmu á þessu stigi, held að við höfum hlegið aðeins of mikið – og mögulega verið í andnauð – til að muna eftir myndatökunni 🙂

Næsta skref var að líma neðri hlutann, við ætluðum eins og fyrr segir að geta saumað buxur…við þurftum nú að hverfa frá þeirri hugmynd…tjah það var bara of mikið mál að teipa klofið 😀

Svona litum við vinkonurnar út eftir heildarteipingu, gaman að sjá svona ólíka kroppa…

Þá var að komast úr þessu, klipptum upp bakið, komumst úr og teipuðum svo opið saman…

Ég keypti síðan troð í Ikea, bara svona inn í púða, reif það upp og tróð inní, ég notaði alveg þrjá stóra púða til að troða í báðar gínur…

Nú veit ég ekki hvort þið eruð búin að sjá videoið hér að ofan en þetta átti að vera mega auðvelt…var það ekki því gínurnar halda ekki jafnvægi fyrir það fyrsta…

…og svo þarf ég eitthvað að skoða hvernig teipið fer á kroppinn því annað brjóstið á mér hvarf…og ekki fór nú mikið fyrir því áður 😀

Mögulega verður þetta prufað aftur en þangað til er hægt að leggja á þetta flíkur til að miða út hvar brjóstin ættu að vera, nú eða til að teikna út hvar best sé að klippa flíkina – eins og gert var í þessu tilviki…en verulega skemmtileg kvöldstund með bestunni minni og ég held enn í þá trú að hægt sé að útbúa gínu sem virkar til sniðagerðar 🙂

Takk fyrir að lesa – eigið góðan dag 🙂

Birt í Óflokkað | Færðu inn athugasemd

Breytingar eru góðar

IMG_0665Jæja, þá er það kjóllinn sem ég keypti á útsölunni í Corner í Smáralind. Eins og ég sagði í síðustu færslu, sem má lesa hér, þá elska ég að breyta flíkum og keypti mér fallegan kjól á góðu verði. Hann var hins vega ansi hreint viðburðalítill og ermarnar allt of þröngar. Ég gleymdi að taka mynd áður en ég tók hann í sundur en hér er mynd af framstykkinu – hann var eins að aftan…

IMG_0640Ég hafði greinilega ekki heldur rænu á að pressa efnið aðeins fyrir myndatöku 😀

Ég var ekki með neina ákveðna hugmynd, aðra en að gera meira úr kjólnum, mig langaði ekki að hafa hann svona einfaldan. Fljótlega kom sú hugmynd að klippa hann upp og setja annað efni á móti – mögulega þá efni sem teygist. Ég var náttlega doldið upptekin af því að kjóllinn var í þrengra lagi – og ermarnar allt of þröngar 🙂

Til að klippa kjólinn upp án þess að eyðileggja efnið, var auðvitað mikilvægt að hafa smá hugmynd um hvernig best væri að haga þessu. Ég lagði því framstykkið á sníðaborðið og teiknaði á efnið, hugmyndina sem fæddist í kollinum…

Þá var ekki eftir nema bara klippa af stað…og finna svo efnið sem hentaði á móti. Ég átti svona svart, gegnsætt efni sem er með teygju og ákvað að nota það…

Ég valdi svo hvaða hluta ég vildi hafa með bleika efninu og hvaða hlutar mættu vera gegnsæir. Svona var útkoman, mér finnst kjóllinn einfaldlega geggjaður og það er svooo gott að vera í honum…

Nema hvað, maður dettur ekkert niður á svona sniðagerð og hættir svo bara 🙂 Nú er ég auðvitað búin að kaupa fullt af flottum efnum til að gera fleiri ef einhver vill panta – sem er hægt að gera í athugasemdum hér að neðan, eða á Facebook síðunni minni, HandS.

Þennan kjól er hægt að nota spari…eða mér finnst hann meira spari en hversdags. Mig langaði líka að prófa að gera einn sem gæti verið meira hversdags. Ég á slatta af gömlum efnum, sem hægt er að lesa um hér og mig langaði að prófa þetta snið á þeim. Þau eru mörg hver úr ullarblöndu og misþykk en ég tók sem sagt eitt af þynnri ullarblönduefnunum og skeytti því saman við kjólaefni sem ég átti afgang af.

Skemmst er frá því að segja að þetta fallega snið gengur alveg hreint upp, þótt efnin séu án teygju, kjóllinn verður víðari, afslappaður og skemmtilegur. Ég var svo spennt að sýna þér þetta snið þannig læt fylgja hér myndir þó að kjóllinn sé ekki tilbúinn, eins og sést á títuprjónunum og ópressuðum fellingunum 🙂

Takk fyrir að lesa – eigið góðan dag ❤

Birt í Óflokkað | Færðu inn athugasemd

Ef efnið er gott

Mamma sagði svo oft þegar ég kom heim með flík…eða efni: „Það er svo gott í þessu“         – sem þýddi auðvitað að gæði voru á efninu. Ég ætla nú ekki að halda því fram hér að ég hafi jafnmikið vit á efnum og mamma hafði – en ég hef mikla tilhneigingu til að kaupa bæði efni og flíkur út frá því hvernig mér líkar efnið. Ég er t.d. alveg ómöguleg í að panta efni á netinu – það er ekki hægt að káfa á því!

Ég kaupi oft flíkur á útsölu bara útaf efninu sem þær eru úr. Þá kaupi ég yfirleitt stærstu stærðina því þá hef ég meira efni að moða úr. Svo fer ég heim og bý til eitthvað uppúr flíkinni.

Ekki alls fyrir löngu, reyndar fyrir áramót, kíkti ég á útsölu í Corner í Smáralind. Corner er ein af mínum uppáhaldsbúðum því þar eru öðruvísi föt en annars staðar – hver elskar ekki öðruvísi búðir 🙂 Á útsölunni datt ég niður á tvennt; allt of stóran prjónakjól og oggu fínni kjól sem var með allt of þröngar ermar. Ég fór glöð heim, gerði þarna bargin og skellti mér í að hugsa upp eitthvað nýtt að búa til úr þessum flíkum.

Hér er fyrri flíkin, prjónakjóllinn…

Það er ekki hægt að segja að sniðið sé flatterandi, enda benti krúttlega afgreiðslustúlkan mér á það „…hann gerir ekkert fyrir mann, sérstaklega ekki grennandi…“ sagði hún meðal annars 🙂 Mér fannst það verulega skemmtilegt því ég var fyrst og fremst spennt fyrir efninu…og hún var ekkert að fara með rangt mál. Kjóllinn verulega undarlegur í sniðinu og – eins og myndirnar sýna og stúlkan sagði – gerir nákvæmlega ekkert fyrir mig.

Ég byrjaði á að rekja allan kjólinn upp, hann var samsettur úr mörgum bútum sem stóðu mismikið út í loftið 🙂

Mjög snemma í ferlinu ákvað ég að búa til opna peysu, efnið er mjög mjúkt og frekar þungt þannig að ég vissi að það myndi falla vel. Mér tókst að nota bútana að mestu án þess að breyta þeim mikið, t.d. hélt ég efsta stykkinu á bakinu alveg óbreyttu. Hér er svo útkoman eftir breytingar…

…og það skemmtilega var að það var nánast enginn afgangur af efninu 🙂

Í næstu viku ætla ég svo að segja ykkur frá kjólnum góða 🙂

Takk fyrir að lesa ❤

 

Birt í fatabreytingar, fatagerð, saumaskapur, sewing, Women´s fashion | Ein athugasemd

Heklað sjal

 

Þetta fallega sjal heklaði ég fyrir löngu síðan, fann gamla uppskrift og var óralangan tíma að kláraIMG_2965 því þetta var eitt af mínum fyrstu heklverkefnum. Ég held að ég sé búin að eiga það í 10 ár og elska það alltaf jafn mikið.

Ég er auðvitað búin að týna uppskriftinni þannig að þegar ég átti garn sem ég vildi gera eitthvað við, ákvað ég að skrifa þetta sjal upp. Ég hef ekki hugmynd um hvort ég hafi skrifað það rétt miðað við upprunalegu útgáfuna en mig grunar að það komi ekki að sökum.

Ég kalla þetta eiginlega bara 3 loftlykkjur því allar loftlykkjurnar í minni uppskrift tengjast 3 🙂

Ég set hérna inn mynd með útskýringum – svona fyrir einhverja sem gleyma eins og ég 😉

IMG_3688

Og hér kemur uppskriftin, í raun er alveg saman hvaða garn er notað…líka stærð á heklunál. Ljósa sjalið er úr akrýlgarni og heklað á nál nr. 5 eða 6. Seinna sjalið er úr litaprengdu ullargarni, mun fínna en það ljósa – heklað með nál nr 4,5.

Grunnmynstur – þetta er endurtekið eins lengi og heklað er:

  1. Umf. 9ll – festa saman í hring
  2. Umf. 6ll, (3ll verða 1st í bakaleiðinni og hinar 3ll verða brú), 1st í hringinn, 3ll, 1st í hringinn, 3ll, tvöfaldur stuðull.
  3. Umf. 6ll, 4 stu (milli stuðlanna í fyrri umferð), 3ll, tvöfaldur stuðull í 3.ll fyrri umferðar (komin brú)
  4. Umf. 6ll, 2st í hvern stuðul frá umf. 3 = 8 stuðlar í allt, 3ll, tvöf. stuðull í 3.ll fyrri umferðar
  5. Umf. 6ll, 2st á hvern frá umf. 4 = 16 stuðlar í allt, 3ll, tvöf.st í 3.ll fyrri umferðar

Nú er grunnmynstri lokið og þá bætum við bara við – tengjum grunnmynstrin saman 🙂

6. Umf. 6ll, 1st, 3ll, 1st – 3ll, 3kl í stuðull 5,6 og 7, 3ll 3kl í stuðla 10, 11 og 12, 3ll – 1st, 3ll, 1st, 3ll, tvöf. stuðull í 3.ll fyrri umf.

Nú er búið að undirbúa að tvö grunnmynstur fari ofaná og verkið ætti að líta svona út…

IMG_2038

7. Umf. 6ll, 4st milli stuðlanna frá fyrri umf., 3ll, 4st í bogann, 3ll, 4st, 3ll, tvöf. stuðull í 3.ll fyrri umf.

8. Umf. 6ll, 8st (2st á hvern), 3ll, 2kl, 3ll, 8st, 3ll, tvöf. st.

Jæja, er ekki að komast mynd á þetta 🙂

IMG_2043

9. Umf. 6ll, 16st (2 í hvern), 3ll, 16st, 3ll, tvöf.st.

10. Umf. 6ll, 1st, 3ll, 1st – 3kl, 3ll, 3kl – 3ll, 1st, 3ll, 1st – 3ll 1st, 3ll, 1st, 3ll, tvöf.st.

Nú eru saman komin tvö grunnmynstur og undirbúningur fyrir 3 í röð…þá lítur þetta svona út…

IMG_2045

 

 

Þetta er nú öll uppskriftin, síðan heldur maður bara áfram, koll af kolli, þangað til óskastærðin er komin – endað á tvöföldum stuðli og gengið frá endum…

Ég vona að þið getið nýtt ykkur þetta, látið mig endilega vita hvað ykkur finnst – takk fyrir mig og gangi ykkur vel 🙂

Birt í handavinna, Hekl, prjónaskapur | Færðu inn athugasemd