Heklað sjal

 

Þetta fallega sjal heklaði ég fyrir löngu síðan, fann gamla uppskrift og var óralangan tíma að kláraIMG_2965 því þetta var eitt af mínum fyrstu heklverkefnum. Ég held að ég sé búin að eiga það í 10 ár og elska það alltaf jafn mikið.

Ég er auðvitað búin að týna uppskriftinni þannig að þegar ég átti garn sem ég vildi gera eitthvað við, ákvað ég að skrifa þetta sjal upp. Ég hef ekki hugmynd um hvort ég hafi skrifað það rétt miðað við upprunalegu útgáfuna en mig grunar að það komi ekki að sökum.

Ég kalla þetta eiginlega bara 3 loftlykkjur því allar loftlykkjurnar í minni uppskrift tengjast 3 🙂

Ég set hérna inn mynd með útskýringum – svona fyrir einhverja sem gleyma eins og ég 😉

IMG_3688

Og hér kemur uppskriftin, í raun er alveg saman hvaða garn er notað…líka stærð á heklunál. Ljósa sjalið er úr akrýlgarni og heklað á nál nr. 5 eða 6. Seinna sjalið er úr litaprengdu ullargarni, mun fínna en það ljósa – heklað með nál nr 4,5.

Grunnmynstur – þetta er endurtekið eins lengi og heklað er:

  1. Umf. 9ll – festa saman í hring
  2. Umf. 6ll, (3ll verða 1st í bakaleiðinni og hinar 3ll verða brú), 1st í hringinn, 3ll, 1st í hringinn, 3ll, tvöfaldur stuðull.
  3. Umf. 6ll, 4 stu (milli stuðlanna í fyrri umferð), 3ll, tvöfaldur stuðull í 3.ll fyrri umferðar (komin brú)
  4. Umf. 6ll, 2st í hvern stuðul frá umf. 3 = 8 stuðlar í allt, 3ll, tvöf. stuðull í 3.ll fyrri umferðar
  5. Umf. 6ll, 2st á hvern frá umf. 4 = 16 stuðlar í allt, 3ll, tvöf.st í 3.ll fyrri umferðar

Nú er grunnmynstri lokið og þá bætum við bara við – tengjum grunnmynstrin saman 🙂

6. Umf. 6ll, 1st, 3ll, 1st – 3ll, 3kl í stuðull 5,6 og 7, 3ll 3kl í stuðla 10, 11 og 12, 3ll – 1st, 3ll, 1st, 3ll, tvöf. stuðull í 3.ll fyrri umf.

Nú er búið að undirbúa að tvö grunnmynstur fari ofaná og verkið ætti að líta svona út…

IMG_2038

7. Umf. 6ll, 4st milli stuðlanna frá fyrri umf., 3ll, 4st í bogann, 3ll, 4st, 3ll, tvöf. stuðull í 3.ll fyrri umf.

8. Umf. 6ll, 8st (2st á hvern), 3ll, 2kl, 3ll, 8st, 3ll, tvöf. st.

Jæja, er ekki að komast mynd á þetta 🙂

IMG_2043

9. Umf. 6ll, 16st (2 í hvern), 3ll, 16st, 3ll, tvöf.st.

10. Umf. 6ll, 1st, 3ll, 1st – 3kl, 3ll, 3kl – 3ll, 1st, 3ll, 1st – 3ll 1st, 3ll, 1st, 3ll, tvöf.st.

Nú eru saman komin tvö grunnmynstur og undirbúningur fyrir 3 í röð…þá lítur þetta svona út…

IMG_2045

 

 

Þetta er nú öll uppskriftin, síðan heldur maður bara áfram, koll af kolli, þangað til óskastærðin er komin – endað á tvöföldum stuðli og gengið frá endum…

Ég vona að þið getið nýtt ykkur þetta, látið mig endilega vita hvað ykkur finnst – takk fyrir mig og gangi ykkur vel 🙂

Birt í handavinna, Hekl, prjónaskapur | Færðu inn athugasemd

Hér er ég…hér er ég…

…góðan daginn, daginn, daginn!

Síðustu mánuðir hafa verið undirlagðir framkvæmdum innanhúss og litla saumahornið verið notað sem margt annað en saumaaðstaða; þvottahús, sögunaraðstaða, geymsla og margt, margt fleira…

Það segir sig sjálft að lítið hefur farið fyrir saumaskap, ekki bara er aðstaðan fáránleg heldur eru svona framkvæmdir mikið álag á bæði kropp og sál. Margir dagar hafa verið þar sem kroppurinn hreinlega neitar að leika með, heimtar kyrrstöðu og hvíld og þá er ekkert annað í boði en að hlýða því bara.

Það er nú ekkert hlaupið að því fyrir svona hrút eins og mig en þá er að taka andlegu hliðina í gegn og horfa á jákvæðu hliðarnar á því að geta ekki hreyft sig; hægt að horfa á skemmtilega sjónvarpsþætti, lesa góða bók og skipuleggja hvað maður vill gera þegar líkamsgetan eykst.

Það sem ég er þó allra, allra þakklátust fyrir af þessum verkefnum sem ég get tekið mér fyrir hendur, er getan til að prjóna. Það sem ég hef náð að framleiða á þessum tíma er alveg ágætis slatti og hluta af því ætla ég bara að láta fylgja hér að neðan í formi mynda 🙂

Örlítið hef ég þó náð að sauma, enda erfitt að halda sig alveg frá saumahorninu; kjóll og siffonslá fyrir móður brúðar, afmælisgjöf handa fjölskyldumeðlimi, siffonslá og verkefni sem ég tók að mér fyrir HN Gallery  – skemmtilegt verkefni sem stendur ennþá yfir, aðallega vegna vangetu í saumaskap síðustu mánuði…

Nú líður að því að ég fái saumastofuna mína aftur og það sem ég hlakka til að taka til hendinni þar. Það bíða eftir mér verkefni sem ég er búin að afsaka seinkunn á nokkrum sinnum í sumar – en nú styttist í afhendingu 🙂

Hér kemur prjónið – takk fyrir mig 🙂

Birt í Óflokkað | Færðu inn athugasemd

Fleiri myndir

Elska þetta snið, fyrirmyndin er á fyrstu mynd. Féll strax fyrir þessu sniði en var smá rög að sauma uppúr því, byrjaði á stuttum köflóttum kjól – frekar þykkt efni en kostaði lítið svo ég lét slag standa. Tókst að óskum og því réðist ég í silkikrepið sem ég var búin að eiga í doldið langan tíma. Toppurinn var svo „móðir brúðarinnar“, Magga sem bað mig að hanna og sauma kjól fyrir brúðkaup dótturinnar – þar tók ég sniðið á næsta „level“, klippti það allt í sundur og raðaði uppá nýtt, bætti við ermum og guð má vita hvað. Hrikalega skemmtileg vinna sem tók ágætlega á og algerlega þess virði því Magga var hæstánægð.

 

Yfirhafnir…gömlu geggjuðu efnin sem mér áskotnaðist úr lager sem legið hafði óhreyfður frá 1994. Tilraunastarfsemin varðandi efnin heldur áfram 🙂

Birt í Óflokkað | Færðu inn athugasemd

Baukað með efni

Núna í október eru 2 ár síðan ég komst í lagerinn úr Horninu – efnabúðinni sem lokaði árið 1994. Ég keypti stóran hluta af lagernum, eiginlega bara öll efni sem ég taldi mig geta notað…einhvern tíma. Mikill hluti efnanna voru úr ullarblöndu og þar sem ég var á kafi í teygjuefnum þá fóru efnin í hillu og hafa verið þar síðan.

Auðvitað er ég búin að prófa eitthvað smá en með misgóðum árangri…

…en einhvern veginn átti þetta ekki uppá pallborðið hjá mér og ég fann bara að þetta var ekki það sem mig langaði að gera. Mér finnst þetta samt doldið töff, að vera með svona kjól og yfirhöfn í sama efni – svona gamaldags…alveg ég en samt eitthvað bogið við þetta sem ég náði ekki að festa fingur á…

Þetta eru alveg ótrúlega falleg efni, misþykk en eiga það öll sameiginlegt…og það sem ég lærði við þetta fyrsta fikt, að það verður að fóðra flíkur úr svona ullarefnum.

 

Það eru að minnsta kosti tvær ástæður; ullarefni eru stífari en bómull og gerfiefni og eiga það til að stinga viðkvæma húð. Svo er hitt og það finnst mér mikilvægara; svona gömul, ofin ullarefni eru ekki með neina teygju í sér þannig að þegar maður notar sniðna flík þá vill hún aflagast ef ekki er fóður innan undir – bara svipað og með prjónaefni.

Það hefur aldrei staðið annað til en að nota megnið af efnunum í yfirhafnir, ég bara hef ekki fengið almennilegar hugmyndir…þar til í sumar 🙂

Þessar fyrstu flíkur eru byggðar á sniðum sem ég bjó til fyrir prjónakjóla og síðar peysur…

Mér finnst svo gaman að þessu, að taka snið sem hugsað er fyrir ákveðna flík – og breyta því í aðra. Eins er gaman að sjá hvernig sama snið getur passað með alls konar, mismunandi efnum – þó flíkin verði aðeins öðruvísi. Hér er hægt að lesa um sniðið margbreytilega 🙂

Hérna er ég svo að leika mér við gamalt snið sem ég breyti – þessi jakki finnst mér bara geggjaður, fékk sniðið úr eldgömlu sníðablaði og breytti smá. Er alveg ákveðin í að gera meira af því 🙂

Í næstu ullarefnatörn ætla ég að muna að taka myndir af ferlinu og reyna að hafa smá fróðleiksmola með 🙂

Takk fyrir lesturinn 🙂

Birt í fatagerð, saumaskapur, sewing, Women´s fashion | Merkt , , , , , , | Færðu inn athugasemd

Köflóttur bassi

Það er svo skemmtilegt hvernig hlutirnir stundum detta bara á sinn stað. Ég er – og skammast mín ekkert fyrir að segja það – efnaperri! Það er alveg sama hvar ég er, ég leita að fataefnum til að eignast. Ég var t.d. í sumarfríi með fjölskyldunni á Spáni síðasta sumar, 35 stiga hiti og sól og að sjálfsögðu fórum við á markaðinn. Alls konar hellingur af öllu mögulegu og það eina sem ég hugsaði um voru efni….eiginmaðurinn og dóttlan fundu girnilegar ólífur og sonurinn fann snakk og nammi en ég…..fataefni!

Núnú, ég keypti auðvitað – fann reyndar bara tvö…

Þessi efni eru mjög ólík, það svart/hvíta vinstra megin er teygjuefni og í þynnra lagi. Þetta köflótta er ekta kjólaefni af gamla skólanum; þétt, teygjulaust og stendur vel. Það er líka gott báðum megin, þ.e. rangan er einlit svört og ekki hægt að sjá að það sé rangan 🙂

köflótt og svart

Það er stutt að segja frá því að síðan við komum heim hafa þau legið uppí skáp. Í kjölfar breytinga í saumahorninu – segi frá því næst 🙂 fór ég að hugsa um þessi efni, hvað ég ætti að gera við þau….og hvenær. Ég ákvað að gera kjól úr þessu köflótta. Fann mér Burdastyle blað með töff sniði – þetta varð lendingin…

 

Ég var ekkert að ráðast á garðinn þar sem hann var lægstur, erfiðleikastigið á sniðinu er 3 punktar – með því erfiðara sem sagt. Kjóllinn í blaðinu er svo þar að auki utaná tágrannri fyrirsætu – og þar að auki úr silki…

Kannski var það ástæðan fyrir því að ég átti eitthvað erfitt með að koma mér að verki.

Það var ekki fyrr en kórinn minn, Kvennakór Kópavogs, hélt æfingabúðir að hlutirnir fóru að gerast. Uhhh, hvernig getur kjólsaumur og kóræfingabúðir átt saman??? Jú, í æfingabúðum er alltaf hátíðarkvöldverður – einskonar árshátíð – og þar er alltaf þema! Þemun hafa verið, eins og sést á myndunum, fjölbreytt; t.d. rokk, villta vestrið og í fyrra þjóðir!  Í gegnum árin erum við vinkonurnar, ég og Gunnhildur bestan mín, búnar að vera ansi langt úti með búninga…

Eftir þemað í fyrra ákváðum við að vera „penar“ næst. Núna kom svo tilskipun um að hver rödd klæddist sínu mynstri og…2. alt átti að vera köflóttur! Hversu mikil snilld er þetta – þarna liggur kölfótta efnið, Burda á borðinu með sniðið klárt og þemað mitt köflótt!

Það er nú skemmst frá því að segja að saumaskapurinn gekk ótrúlega vel, flækjustigið ögn hærra en ég er vön í saumaskap en ég hef greinilega lært ýmislegt í gegnum árin og mér tókst bara vel upp. Ég fylgdi að sjálfsögðu leiðbeiningunum í blaðinu út í æsar, þær voru mjög góðar þannig að þetta hafðist með þolinmæði og smá reynslu 🙂

Bassinn kominn í köflótt og alveg öruggt að ég á eftir að nota þennan „búning“ mun meira en alla hina 🙂

Mér finnst voða gaman að sjá hvað það kemur vel út að hafa mittisbútana svarta – efnið á röngunni 🙂 Þetta gerir svo flott mitti en það er nú eitt af því sem ég er ekki þekkt fyrir         – síður en svo, ég fæddist með þennan „I“ vöxt – sem í raun er bara sami vöxtur og kústskaft 😉 Komin í þennan kjól var bara komið mitti á mína – ekki leiðinlegt 🙂

Takk fyrir mig 🙂

 

Birt í Óflokkað | Merkt , , , , , , , | Færðu inn athugasemd

Út í bæ

Mikið óskaplega er ég búin að vera andlaus varðandi bloggið í vetur, það góða er nú samt að ég hef tekið myndirnar og séð greinarnar fyrir mér…það hefur bara vantað textann 🙂

Eitt af því sem ég gerði núna á nýju ári var að taka að mér verkefni utan Saumahornsins. Það var nú doldið ævintýri, ég tók með mér saumavélina niður í Skeifu, þar voru tveir ungir og myndarlegir menn með fyrirtæki sem heitir Keyhabits, hér er hægt að skoða það. Þeir þurftu að láta stytta ansi stórar og miklar drapperingar. Drapperingar nefnast öðru nafni tjöld 🙂

Ég vissi í raun ekkert hvað ég var að fara útí og veit ekki alveg hvort ég hefði tekið þetta að mér, vitandi nú hvernig kroppurinn myndi taka því – en ég fór og græjaði þetta, tók svo nokkra daga í að jafna mig 🙂

Svona leit þetta út þegar ég kom… IMG_0136

Tjöldin 3-4 metra há og 40cm of síð, sem gerði það að verkum að drapperingarnar virkuðu ófrágengnar og „sjoppulegar“ Ég byrjaði á að skríða með gólfinu til að næla efnið upp í rétta sídd- efnið var allt of þungt og mikið til að taka niður og mæla þannig. Þar að auki var loftið á sumum stöðum hallandi, og drapperingarnar festar í það, og því hefði verið miklu meira mál að mæla rétta sídd með tjöldin liggjandi á gólfinu.

IMG_0134

Svo var ekkert annað í stöðunni en að stilla litlu borði við tjöldin, saumavélina ofaná og ná svo í efnið til að sauma – færa síðan reglulega borðið með öllu hafaríinu á, þangað til ég náði að sauma út á enda 🙂 Skemmtilega öðruvísi verkefni og hér koma nokkrar „eftir“ myndir – þess má geta að hvítu drapperingarnar voru alveg eins; stórar, þungar og 40cm of síðar  🙂

Jamm, eins og ég segi, skemmtilega öðruvísi verkefni – veit ekki hvort ég tæki svona að mér aftur en þeir mega eiga það, myndarlegu gaurarnir í Keyhabits að þeir voru hjálplegir í alla staði, röltu um svæðið með borðið og gerðu allt sem þeir gátu til að gera mér verkið sem léttast 🙂

Takk fyrir mig 🙂

Birt í Óflokkað | Merkt | Færðu inn athugasemd

Ó mæ, þetta efni…

_MG_0002 Þegar ég byrjaði með þetta saumablogg þá sagði ég ykkur frá efnaútsölunni í húsinu við hliðina á okkar, þar var einu sinni efnabúð sem hér Hornið. Alla vega, ég týndi bæði stað og stund þarna á útsölunni, innan um rykfallin efni sem einnig höfðu lent í sóti og sum í raka (sem ég keypti að sjálfsögðu ekki) Mest af þessum efnum voru ullarefni en allt í einu blasti þetta við mér

_MG_0003

– uppvafið í stranga reyndar, en samt… Þetta efni kallaði bara á mig, ég skildi eiginlega ekkert í því, þetta er alls ekki minn stíll og ég hafði ekki hugmynd um hvað ég ætlaði að nota efnið í…Ég reif samt  strangann fram – doldið í græðgi – og skellti honum í bunkann sem ég ætlaði að kaupa, hugsaði að ég hlyti á endanum að fá einhverja hugmynd að notkunarmöguleikum. Efnið er trúlega akrýl heilt í gegn – efni sem margir fúlsa við því það er ekki snefill af náttúrulegum eiginleikum – túrkis blátt að lit og með gulu neonlitu mynstri…

Jæja, efnið fór með mér heim, upp í hillu  í saumahorninu og beið þar…og beið….og beið…og ekki datt mér neitt sniðugt í hug að nota það í. Síðan leið tíminn og ég gerði mér peysu, svona eins og þessa

_MG_0051            _MG_0047

og hélt svo opið hús, sagði frá því hér um daginn. Það skemmtilega við opið hús er að fá fólk inn, fólk sem skoðar efnin, fiktar og dettur ýmislegt í hug. Þar voru tvær sem féllu fyrir efninu góða og pöntuðu svona peysu úr því efni. Sif fékk sér peysu eins og þessa brúnu hér að ofan…

_MG_0001 (1)                  _MG_0005 (1)

Gunnhildur besta mín leyfði mér að prófa mig áfram í sníðagerð og þetta varð útkoman á hennar peysu…

_MG_0043                 _MG_0048 (1)

Peysuna gerði ég eftir sníðakerfi Lutterloh en þar tekur maður brjóst-og mjaðmamál og býr til snið úr þeim málum – eftir kúnstarinnar reglum 🙂

Það er skemmst frá því að segja að peysurnar hafa slegið í gegn, vekja athygli hvar sem þær koma, pantanir detta inn og nú er efnið uppselt, síðasta peysan verður tilbúin fyrir lok nóvember.

Ótrúlega skemmtilegt hvernig hlutirnir detta á sinn stað – ég var t.d. að stefna á ullarjakkagerð fyrir veturinn en peysurnar tóku yfirhöndina…

Sjáum til hvað ég geri með ullarjakkana 🙂

Takk fyrir mig 🙂

Birt í Óflokkað | Merkt , , , , | 2 athugasemdir