Saumahorn Siggu

Komið sæl og blessuð og velkomin á bloggið mitt. Ég heiti Sigríður er yfirleitt kölluð Sigga og bý á fallega Kársnesinu í Kópavogi. Velkomin í saumahornið mitt, endilega skoðaðu það sem þú vilt og gaman væri að fá að heyra frá þér, hvernig þér finnst. Hérna er að finna alls konar verkefni sem ég hef tekið mér fyrir hendur, sem og þau sem ég hef fengið í hendurnar 🙂 Sem sagt allt mögulegt þótt mesta áherslan sé á saumaskapinn minn.

Ég er búin að vera að prjóna og sauma í mörg ár, fyrst og fremst fyrir sjálfa mig, börnin mín og fólkið í kringum mig. Eftir því sem árin líða, fjölgar í hópnum sem þiggur hjá mér saumaskap, allt frá viðgerðum upp í nýjar flíkur úr heimahönnuðu sniði. Ég er farin að búa mín eigin snið til og hef lært að taka niður mál og sníða eftir þeim. Skemmtilegast finnst mér að hanna nýja flík frá grunni – og að breyta flík. Best finnst mér og skemmtilegast að vinna með náttúruleg efni og þar er silki algerlega efst á blaði, en ég geri líka mikið af því að endurnýta gömul efni.

Saumaskapurinn hófst í kringum árið 2000, það þróaðist þannig að ég varð óvinnufær á hinum almenna vinnumarkaði og þurfti einfaldlega að finna mér eitthvað að gera til að eyða tímanum. Ég var þá búin að vera að prjóna í nokkur ár og vantaði nýja áskorun. Ég er ekkert endilega að ráðast á garðinn þar sem hann er lægstur, ég er Hrútur og á það til að vaða í gang með hugmyndir – sem stundum springa svo í andlitið á mér, hehe. Í þetta fyrsta skipti ákvað ég að sauma samkvæmiskjól úr dýrindis efni sem ég keypti í Föndru, notaði snið úr Burdablaði og allt klárt. Ég byrjaði auðvitað á því að taka mál af sjálfri mér – ekki vildi ég sníða of lítinn kjól og eyðileggja efnið – og svo lagðist ég í sníðavinnuna. Ég mundi auðvitað orð mömmu með að vanda sníðunina og það gekk allt vel. Þá var bara eftir að setja hlutana saman – það var nú aðeins flóknara en fyrir byrjanda, á kjólnum var mittislindi sem tengdi brjóststykkið við pilsið og lindinn var v-laga að ofan og neðan. Þetta kallaði á mikið hugmyndaflug en á endanum kom ég stykkjunum saman 🙂

Þá var bara eftir að máta og dást að sköpunarverkinu í speglinum….mikið vildi ég að ég ætti mynd af mér í nýja kjólnum…Stutt er frá því að segja að ég, mamma og tvær góðar vinkonur mínar hefðu getað verið í kjólnum….á saman tíma! Sem betur fer gat ég hlegið að þessu – uh, eða nokkrum vikum síðar og fór þá með kjólinn til mömmu og mátaði hann fyrir hana og spurði hvort hægt væri að minnka hann. Ég gleymi aldrei svipnum á henni, augun stækkuðu og munnurinn opnaðist aðeins og eftir góða þögn sagði hún: „ja, hugsanlega geturðu breytt honum eitthvað…“

Ég lét nú samt ekki þetta fyrsta flopp stoppa mig en þarna komst ég að því hvað það er gaman að breyta flík….

Í dag sauma ég nánast allar mínar flíkur sjálf, sauma slatta á stelpuna mína – svona þegar hún biður um það – og tek að mér að sauma fyrir aðra. Svo dunda ég við að hanna mín eigin snið og flíkur og merki þau með fiðrildi og merkinu HandS

Mér finnst sniðugt að vera með svona síðu því hér get ég leyft öðrum að fylgjast með hvað ég er að gera – og hvernig, að ég tali nú ekki um sjálfa mig. Oft finnst mér afkastagetan mín ósköp lítil og þá er nú gott að kíkja hér inn og sjá hvað ég hef verið að dunda mér við.

Kannski getur einhver lært eitthvað af mér, eða bara notið þess að lesa og skoða myndir.

Takk fyrir innlitið, það er hægt að hafa samband við mig á netfangið siggatrygg@gmail.com. Bestu kveðjur, Sigga

3 athugasemdir á “Saumahorn Siggu

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s