Ferðalög

Ég elska að ferðast og geri eins mikið af því og ég get. Finnst fátt skemmtilegra en að heimsækja nýja borg, ganga um gamlar og þröngar götur eða friðsama garða með alls konar gróðri. Setjast svo niður og horfa á mannlífið, hvort sem er í rólegum garði eða á mannmörgu torgi. Langar flugferðir og misgóð rúm á gististöðum er hins vegar kannski ekki það besta fyrir kroppinn minn en upplyftingin og næringin sem sálin fær, bætir margsinnis fyrir kroppalinginn 🙂

Ég get nú ekki sagt að ég sé neitt sérstaklega víðförul, hef nú samt heimsótt nokkur lönd, sum oftar en önnur. Öll mín ferðalög eiga það sammerkt að efnabúðir eru heimsóttar, sem og aðrar hannyrðabúðir. Ef svo ólíklega vill til að ekki finnst efnabúð, þá kaupi ég yfirleitt einhverja skemmtilega flík, annað hvort til að fá efnið til að nota í annað, eða til að fá hugmyndir varðandi útfærslur. Nú ef hvorugt finnst, þá má alltaf kaupa sér skemmtilega skó til að hanna eitthvað við 😉

Það er nú ekkert langt síðan þetta byrjaði hjá mér, þegar við fluttum í stærra húsnæði árið 2014, fékk ég alveg séraðstöðu fyrir efnin mín, vélarnar og saumaskapinn allan. Stuttu seinna komst ég í lagerbrunaútsölu á eldgömlum efnum og þá var ekki aftur snúið…held ég skilji bara eftir hér, smá myndasafn 🙂

Ferðalögum er hvergi nærri lokið, ég er rétt að byrja svona komin á miðjan aldur 🙂 Mikið sem ég hlakka til frekari ferðalaga…og efniskaupa 😉

Takk fyrir innlitið ❤